Leggja slitlag heim að bæjum

Til stendur að leggja slitlag heim að bæjum í Ásahreppi þar sem það er ekki fyrir hendi nú þegar.

Að sögn Eydísar Þ. Indriðadóttur, oddvita, er um að ræða héraðsvegi heim að tuttugu býlum og húsum þar sem er föst búseta. Þessar framkvæmdir eru rúmlega níu kílómetrar að heildarvegalengd.

Eydís segir að á árunum 1997 til 1998 hafi verið malbikað heim að bæjum í hreppnum og þessar framkvæmdir sem nú sé verið að ráðast í stafi í raun af aukinni uppbyggingu á síðustu fjórtán árum.

Framkvæmdirnar eru sparnaður fyrir Vegagerðina til lengri tíma þar sem viðhald veganna minnkar til muna. Íbúar hreppsins taka ekki þátt í kostnaðinum nema þeir semji sérstaklega um eitthvað meira, svosem malbikun á bílastæðum.