Laxveiðin ennþá dræm

Eystri-Rangá þokast upp aflatölulistann en í gær voru komnir á land 363 laxar en veiðin er mun minni en á sama tíma og í fyrra.

Á sama tíma í fyrra voru 438 laxar komnir á land í Eystri-Rangá. Hún er nú í fjórða sæti yfir helstu laxveiðiár á Íslandi.

Munurinn á milli ára er umtalsvert meiri í Ytri-Rangá en þar eru aðeins komnir á land 189 laxar. Í sömu viku í fyrrasumar hafði tekist að landa 516 löxum.

Veiði í Stóru-Laxá fer einnig hægar af stað en í fyrrasumar. Þar eru nú komnir á land 66 laxar en á sama tíma í fyrra voru veiddir laxfiskar 80 talsins.

Einar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri veiðifélags Eystri-Rangár, sagði í samtali við Sunnlenska að veiðin sé að glæðast, en smár fiskur sé lítið farinn að ganga. Veiðimenn bera vonir til að stórstreymi í upphafi þessarar viku hjálpi laxinum í göngu og veiðin glæðist í kjölfarið.

Fyrri greinStokkseyri og Árborg töpuðu
Næsta greinVoces Thules í Skálholti