Lausaganga hænsna í þéttbýli bönnuð

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti samþykkt um hænsnahald í þéttbýlinu í sveitarfélaginu á síðasta fundi sínum.

Leyfilegt er að halda fimm hænur á hverri lóð en óheimilt er að halda hana. Lausaganga hænsna er með öllu óheimil og sleppi hænsni úr gerði skal tafarlaust gera ráðstafanir við að handsama þau. Komist hæna ekki í réttar hendur innan sjö daga er heimilt að ráðstafa henni til nýs eiganda eða selja fyrir áföllnum kostnaði. Ef það tekst ekki verða handsamaðar hænur aflífaðar.

Á lóðum þar sem leyfi er til hænsnahalds þarf að vera að lágmarki 2,5 fm hænsnakofi með gerði, byggður samkvæmt byggingarreglugerð, og til að koma í veg fyrir ónæði vegna hávaða þarf að hafa myrkur hjá hænsnum frá kl. 21 til kl. 07 alla daga. Þrífa skal hænsnakofa að lágmarki vikulega og farga hænsnaskít á löglegan hátt.

Fyrri greinÖllum stærri viðburðum aflýst
Næsta greinKosið um sameiningu 25. september