„Laugaskarð er ein notalegasta flotflaug landsins“

Ljósmynd/Þórey Viðars

Föstudagskvöldið 21. júní næstkomandi verður haldið Sveita-samflot í sundlauginni í Laugaskarði í Hveragerði. Er þetta í áttunda sinn sem Sveita-samflot er haldið í þessari laug.

„Eftir að hafa reynt þær nokkrar erum við og mjög margir aðrir á því því að Laugaskarð er ein notalegasta flotflaug landsins,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, ein af skipuleggjendum Sveita-samflotsins, í samtali við sunnlenska.is.

„Laugin verður sérstaklega töfrandi að kvöldi til þegar allt er dottið í dúnalogn. Samhliða flotinu verður fólk gjarnan líka fyrir náttúrupplifun. Fer djúpt inn á við. Það ríkir mikil kyrrð í Laugaskarði, laugin er falleg og vatnið einstakt. Við systur þreytumst aldrei á að mæra þessa laug,“ segir Guðrún en hún ásamt Jóhönnu systur sinni, Flothettunni og Hveragerðisbæ standa að Sveita-samflotinu.

Heilandi gongtónar
„Í þetta sinn byrjum við klukkan tíu því auðvitað er gaman að fljóta nálægt miðnætti á sumarsólstöðum. Töfrandi tilhugsun. Þær Unnur Einarsdóttir og Sólbjört Guðmundsdóttir, sem báðar eru jógakennarar og mjög reyndir gongspilarar, ætla að vera við sundlaugabakkann hvor með sitt gongið. Heilandi tónar gongsins eru mjög öflugir og við höfum líka tekið eftir því að fuglarnir kunna að meta gongspil og syngja með. Þar verður tími til að losa gamalt og opna fyrir nýtt,“ segir Guðrún.

Aðspurð hvort það sé alltaf sama fólkið sem mætir í Sveita-samflot segir Guðrún að nýliðun sé þétt og örugg. „Það er mikið um að þeir sem koma oft, taki með sér vini sem ekki hafa komið áður. Þeir taka svo vini með sér sem ekki hafa komið áður. Við myndum segja að að jafnaði sé helmingur sem komið hefur í Sveita-samflot áður og helmingur ekki. Eins gaman og það er fá aðdáendur sveitasamflotsins aftur og aftur en alltaf skemmtilegt að sjá nýja koma og upplifa sitt jómfrúarflot. Það er oftast byrjun á einhverju ævintýralegu.“

Ljósmynd/Jóhanna Kristjánsdóttir

Hjálpar orkumiklu fólki að slaka á
Guðrún segir konur vera í meirihluta af þeim sem mæta í Sveita-samflot en að karlmönnunum fjölgi jafnt og þétt. „Konurnar eða kærusturnar ná mönnunum gjarnan með sér. Það er frábært að sjá. Ég held að ég sé ekki brjóta neinn trúnað þegar ég segi að það var dásamlegt að sjá til dæmis orkuboltann Tómas Guðbjartsson lækni fljóta í fyrsta sinn (sem var að vísu í sveitalaug fyrir vestan). Konan hans sagðist aldrei hafa séð hann slaka eins vel á.“

„Þetta segja þær eða þau gjarnan um orkumikið fólk sem fer að fljóta. Flotið virðist ná djúpt til margra sem hafa í mörgu að snúast og virðast lítið kunna slaka á. Það er skemmtilegt,“ segir Guðrún að lokum.

Viðburðurinn á Facebook

Fyrri greinElvar bestur og Haukur efnilegastur
Næsta greinFimmtán slökkviliðsmenn útskrifaðir