Laugalandsskóli tekur þátt í fatasöfnun Hróksins

Skákfélagið Hrókurinn, í samvinnu við fjölmarga aðila, stendur nú fyrir söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn á Austur-Grænlandi.

Skólar víða um land, fyrirtæki og einstaklingar taka þátt í söfnuninni sem stendur út september. Verndari söfnunarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

Til söfnunarinnar var stofnað í samvinnu við skólastjórnendur í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, sem er á 70. breiddargráðu. Hróksmenn þekkja vel til í þessu 450 manna þorpi, eftir að hafa skipulagt þar veglegar páskaskákhátíðir fyrir börn og ungmenni síðustu átta árin.

Söfnunin hófst í síðustu viku og voru undirtektir prýðilegar. Nemendur og starfsfólk Laugalandsskóla hefur ákveðið að taka þátt í söfnuninni og því er fólk beðið að athuga hvort það leynast föt, sem orðin eru of lítil eða hætt er að nota, í skápum á heimilum í sveitinni sem gætu farið til granna okkar á Grænlandi. Óskað er eftir hverskyns nýjum eða óslitnum og hreinum fötum og skóm á börn á aldrinum 0-15 ára og sérstaklega er vel þegið ef um íþróttafatnað er að ræða.

Stefnt er að því að fulltrúar frá Hróknum komi í Laugalandsskóla í næstu viku og taki við því sem safnast og því væri gott að fatnaðurinn bærist á næstu dögum.

Auk þess ætlar starfsfólkið að aðstoða nemendur við að skrifa bréf til skólabarna á Grænlandi. Áformað er að taka við fötum sem nemendur kæmu með í skólann næsta föstudag og mánudag.

Frá þessu er greint á heimasíðu Ásahrepps.

Fyrri greinGrétar snýr heim
Næsta greinNýr útsýnispallur við Ófærufoss