Laufey nýr formaður FKA á Suðurlandi

Nýkjörin stjórn FKA Suðurlandi. (F.v.) Svanhildur, Íris Tinna, Laufey, Margrét, Jessi og Hrönn. Á myndina vantar Herdísi Friðriksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri Jarðhitasýningar Orku náttúrunnar, var kjörin nýr formaður FKA Suðurlandi á aðalfundi í síðustu viku.

„Ég hlakka mikið til að fá að takast á við þetta skemmtilega hlutverk og hvet konur til að koma með,“ segir Laufey. „Auður Ingibjörg Ottesen, ritstjóri og eigandi tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn, afhenti keflið yfir til mín. Auður hefur gert stórkostlega hluti fyrir deildina sem formaður og í okkar huga Orkubú Suðurlands.“

Auk Laufeyjar eru í nýrri stjórn FKA Suðurlandi þær Herdís Friðriksdóttir hjá Understand Iceland og Skálholti, Hrönn Vilhelmsdóttir, Hlöðueldhúsinu Þykkvabæ, Íris Tinna Margrétardóttir, Ísbúðinni okkar Hveragerði, Jessi Kingan, Rauða húsinu Eyrarbakka, Margrét Ingþórsdóttir, Mundakoti bókhaldsstofu og Svanhildur Jónsdóttir, hjá atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar.

FKA Suðurland er deild innan Félag kvenna í atvinnulífinu, sem er hreystivöllur fyrir konur á Suðurlandi sem vilja stórefla tengslanetið, styrkja sig og hafa áhrif í íslensku atvinnulífi.

Kröftugt starfsár framundan
Það er kröftugt starfsár framundan hjá Félagi kvenna í atvinnulífinu. Næst á dagskrá hjá FKA Suðurlandi er að taka á móti Atvinnurekendadeild FKA sem fer í spennandi haustferð um Suðurlandið dagana 8.-10. október. „Ég hvet konur til að skrá sig í þá ferð og tryggja sér sæti en það er margt annað framundan. Samtalið við hinar landsbyggðardeildirnar heldur áfram að gefa en það samstarf hófst formlega í fyrra þegar við skipulögðum frábæra landsbyggðaráðstefnu. Við komum til með að halda því áfram,“ segir Laufey að lokum.

Hægt er að sækja um aðild á forsíðu heimasíðu Félags kvenna í atvinnulífinu á www.fka.is.

„Nú þarf ég ekki Fálkaorðuna!“ sagði Auður þegar henni var afhent kort sem Hrund Guðmundsdóttir snillingur útbjó fyrir fráfarandi formann. Ljósmynd/Aðsend
Auði var að sjálfsögðu þakkað fyrir frábært starf sem formaður og að hafa tekið þá ákvörðun fyrir fáeinum árum að rífa upp deildina sem telur nú um 80 félagskonur. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSex mánaða fangelsi fyrir fíkniefnaakstur
Næsta greinÞýskur upplestur á Brimrót