„Langþráður draumur að rætast“

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari og Hildur Hálfdanardóttir, ritari og verkefnisstjóri Grænna skrefa við ML, eru ánægðar með nýju hleðslustöðvarnar. Ljósmynd/ML

Rafhleðsluaðstöðu fyrir fjóra bíla hefur nú verið komið fyrir á bílastæðinu við Menntaskólann að Laugarvatni. Verkið hefur verið lengi í undirbúningi en stöðvarnar eru nú komnar í gagnið eftir að styrkur fékkst til kaupa á stöðvunum frá Orkusjóði.

„Það er langþráður draumur að rætast að fá stöðvarnar loksins til okkar í ML. Nú fyrst er það orðinn raunhæfur möguleiki fyrir starfsfólk sem ekur langa leið til vinnu að fjárfesta í rafmagnsbíl. Umhverfismálin eru okkur hugleikin hér í ML, enda ekki annað hægt þegar við horfum á tæra náttúrufegurðina út um gluggana. Laugarvatn er líka fjölfarinn ferðamannastaður og það mun eflaust koma sér vel í sumar að geta nýtt sér stöðvarnar enda eru þær opnar þeim sem skipta við Ísorku,“ segir Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari, í samtali við sunnlenska.is.

Hún segir að með þessu vilji skólinn leggja sitt af mörkum við græn orkuskipti á Íslandi og er vonast til að stöðvarnar nýtist vel ML-ingum, sem og samfélaginu á Laugarvatni.

„Þetta er fyrsta almenna rafhleðslustöðin á Laugarvatni og því geta ferðalangar bætt henni á kortið á ferð sinni um landið,“ segir Jóna Katrín ennfremur.

Rafhleðsluaðstöðu fyrir fjóra bíla hefur nú verið komið fyrir á bílastæðinu við Menntaskólann að Laugarvatni. Ljósmynd/ML
Fyrri greinSér ekki eftir því að henda sér í djúpu laugina
Næsta greinHamar-Þór á góðri siglingu