Langt að bíða niðurstöðu mælingar

Allt að tveir mánuðir geta liðið þar til niðurstaða díoxínmælinga frá sorpbrennslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri liggja fyrir.

Brennslu verður þó ekki hætt á meðan en ekki verður brennt á skólatíma.

Sorpbrennslustöðin á Kirkjubæjarklaustri er sambyggð íþróttahúsi staðarins og í fárra metra fjarlægð frá grunnskólanum. Eftir að umræða um díoxínmengun frá stöðinni hófst fyrir stuttu lýstu foreldrar grunnskólabarna yfir miklum áhyggjum og að minnsta kosti tveimur börnum var haldið heima í nokkra daga vegna mengunarhættu.

Á fundi stjórnar foreldrafélags skólans í síðustu viku var samþykkt áskorun til sveitarstjórnar Skaftárhrepps, þess efnis að sorpbrennslustöðinni yrði lokað þar til mengun frá henni hefði verið mæld eða að sorp yrði ekki brennt fyrr en að loknum skólatíma. Sveitarstjórn tók síðari kostinn.

Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, segir ekkert annað upp á borðinu í dag en að halda rekstri stöðvarinnar áfram.

Ingólfur Hartvigsson, formaður stjórnar foreldrafélagsins, segir stjórn félagsins sátta við ákvörðun hreppsnefndar en leggur áherslu á að hagsmunir barnanna verðir hafðir að leiðarljósi varðandi framtíðarlausn.

RÚV greindi frá

Fyrri greinFyrirtæki á Suðurlandi í vanda
Næsta grein„Við væntum mikils af Jóni”