Langþráð skóflustunga á Hellu

Fyrsta skóflustungan að nýrri viðbyggingu við Hjúkrunarheimilið Lund á Hellu var tekin í gær auk þess sem skrifað var undir samning milli ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun nýbyggingarinnar.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og sveitarstjórarnir Ágúst Sigurðsson í Rangárþingi ytra og Björgvin G. Sigurðsson í Ásahreppi undirrituðu samninginn og tóku svo til við að moka ásamt Drífu Hjartardóttur, formanni stjórnar Lundar og Margréti Ýrr Sigurgeirsdóttur, hjúkrunarforstjóra.

Með nýbyggingunni verður tvíbýlum á heimilinu útrýmt og sköpuð vönduð aðstaða fyrir heilabilaða heimilismenn. Áætlað er að framkvæmdir við viðbygginguna hefjist mjög fljótlega en hún verður 627 fermetrar að stærð.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er um 238 milljónir króna og er fjármögnunin á hendi Framkvæmdasjóðs aldraðra, sveitarfélaganna tveggja sem að heimilinu standa og ríkisins.

Í nýju byggingunni verða litlar íbúðir fyrir átta heimilismenn og er einingin hönnuð með þarfir heilabilaðra í huga. Hjúkrunarrýmum á Lundi fjölgar ekki við framkvæmdina, heldur verður aukið rými nýtt til að útrýma tvíbýlum og bæta þannig aðstæður allra íbúa heimilisins.

UPPFÆRT 12.9.2014 KL. 10:54

Fyrri greinSigurför á hálandaleika í Skotlandi
Næsta greinSigríður Anna setti fjögur HSK met