Langþráð brunavarnaáætlun undirrituð

Brunavarnaáætlun Brunavarna Árnessýslu var undirrituð í dag í sal slökkviliðsins í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Áætlunin er búin að vera í vinnslu um allnokkurt skeið og hefur endanlegt samþykki hennar tafist ítrekað vegna sameininga slökkviliða í sýslunni. Áður en hún var undirrituð var hún tekin fyrir af öllum sveitarstjórnum í Árnessýslu þar sem hún hlaut samþykki.

Í dag komu svo sveitarstjórar eða fulltrúar þeirra ásamt formanni fagráðs BÁ, forstjóra Mannvirkjastofnunar og settum slökkviliðsstjóra BÁ, saman á slökkvistöðinni til þess að undirrita brunavarnaáætlunina og fullgilda hana þar með.

Brunavarnaáætlunina má nota sem grunn að gæðastjórnun og úttekt á starfsemi slökkviliðs fyrir þá aðila sem bera ábyrgð á brunavörnum í sveitarfélögunum í Árnessýslu.

Áætlunin auðveldar einnig íbúum svæðisins að fá upplýsingar um skipulag slökkviliðs og markmið með rekstri þess. Það sama gildir um nærliggjandi sveitarfélög og geta brunavarnaáætlanir einnig orðið grunnur að auknu samstarfi á milli þeirra.

Einnig auðveldar hún Mannvirkjastofnun að hafa yfirlit yfir starfsemi slökkviliða í landinu og meta hæfni þeirra og hvar sé helst þörf á úrbótum.

Brunavarnaáætlun er grunnur að gæðastjórnun og jafnframt úttekt á starfseminni og reglugerð til notkunar fyrir þá sem ábyrgð bera á brunavarnamálum viðkomandi sveitarfélag

Áætlunina skal endurskoða fimm árum eftir að hún hlýtur samþykki. Ef veigamiklar breytingar eru gerðar á forsendum hennar, skal hún endurskoðast fyrr.

Fyrri grein„Breyttist mjög mikið að fá Woods“
Næsta greinLeikskólinn á Laugalandi heimsótti Skeiðvelli