Landvörðurinn læstur úti

Nýráðinn landvörður í Dyrhólaey kemst ekki til vinnu sinnar á svæðinu eftir að bóndi á nærliggjandi bæ og einn nytjaréttarhafa lokaði hliði sem liggur þvert yfir veginn og læsti með keðju og lás.

Hliðið er aðeins um tíu metrum nær eynni en stöðvunartilkynningar sem Vegagerðin setti upp að beiðni Umhverfisstofnunar. Landvörðurinn hóf störf í byrjun maí. Þorsteinn Gunnarsson, bóndi á Vatnsskarðshólum, segir ráðninguna hans í óþökk landeiganda sem nytja eyna.

Lengi hafa staðið deilur um svæðið þar sem nokkrir aðilar hafa þar rétt til að nýta landið t.a.m. í eggjatöku og dúntekju en nokkuð er þar um æðarvarp. Með tilliti til þessa hefur verið uppi mikil barátta milli þeirra sem vilja loka fyrir umferð um Dyrhólaey og þeirra sem vilja veita ferðamönnum ákveðinn aðgang að svæðinu. Hreppurinn telur sig eiga 52% landsvæðisins en hinn hlutinn skiptist á nokkra aðila.

Með nýlegum samningi sem Mýrdalshreppur gerði við Umhverfisstofnun var vonast til að deilur sem staðið hafa um umferð um eyna á varptíma yrðu settar niður.

„Það er okkar að sjá um þetta svæði og hefur verið allt frá því 1978 þegar það var friðlýst,“ sagði Þorsteinn í samtali við Sunnlenska. Hann segir að samningur hreppsins og Umhverfisstofnunar hafi verið gerður án samráðs við sig og aðra ábúendur í Dyrhólahverfinu og raunar hafi þeim ekki verið boðið að setjast að því samningaborði.

„Okkur finnst gróflega brotið á okkur og teljum að þar til annað sé ákveðið muni lokunin gilda og við sjáum um að framfylgja henni enda hafi Umhverfisstofnun sagt okkur að enginn samningur yrði gerður öðruvísi en að samkomulag væri meðal allra aðila,“ segir Þorsteinn. Það loforð hafi síðan verið svikið.

Hann segir algjört skilyrði að lokað sé fyrir umferð á meðan á æðarvarpi stendur. Á skiltinu stendur að það verði til 25. júní. „Það er mögulegt að opnað verði fyrr.“