Landsvirkjun styrkir viðamikla rannsókn á urriða og bleikju við Efra-Sog

Steingrímsstöð og Þingvallavatn í bakgrunni. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar mun styrkja umfangsmikla rannsókn á urriða- og bleikjustofnum á vatnasviði Efra-Sogs, en um er að ræða verkefni undir stjórn prófessors Sigurðar S. Snorrasonar við líffræðiskor Háskóla Íslands.

Þetta kom fram í erindi Sveins Kára Valdimarssonar, líffræðings hjá Landsvirkjun, á málstofu Continental Trout Conservation Fund (CTCF) í Háskólabíói í dag.

Sveinn Kári segir að ítarlegra rannsókna sé þörf, áður en ákveðið verði hvort grafa eigi fyrir fiskvegi framhjá Steingrímsstöð, milli Úlfljótsvatns og Þingvallavatns. Steingrímsstöð var byggð á árunum 1954-1959 af Sogsvirkjunum, í samstarfi ríkis og Reykjavíkurborgar. Byggingin hafði áhrif á urriðann í Efra-Sogi og kemur í veg fyrir að fiskur eigi afturkvæmt úr Úlfljótsvatni upp í Þingvallavatn. Hefur Össur Skarphéðinsson, líffræðingur og þingmaður, talað fyrir því að opnað verði milli vatnanna tveggja með fyrrnefndum fiskvegi.

Meginmarkmið verkefnisins verður að fá skýra mynd af stofnerfðabreytileika og erfðatengslum stofna urriða og bleikju á vatnasviði Efra-Sogs. „Það er margt óljóst um möguleg áhrif fiskvegar á lífríkið,“ segir Sveinn Kári. „Til að mynda er óvíst um hver samgangur bleikju var milli vatna fyrir virkjun,“ segir hann. Erfðaefni bleikju hafi alltaf átt greiða leið úr Þingvallavatni niður í Úlfljótsvatn, en ekki sé vitað í hvaða magni það hafi farið í hina áttina.

„Í öllu falli er sérstaða Þingvallavatns mikil og nauðsynlegt að fara að öllu með gát, áður en ráðist er í framkvæmdir á borð við þessa,“ segir Sveinn Kári.

Landsvirkjun hefur leitast við að halda vatnshæð Þingvallavatns og rennsli sem stöðugustu frá árinu 1984, en þá dró mjög úr sveiflum á vatnsborðinu frá því sem áður var, þegar Þingvallavatn var notað til að miðla vatni til Sogsstöðva. Áður en þær komu til sögunnar einkenndist vatnsborðið af náttúrulegum sveiflum vegna úrkomu og leysinga.

Stöðugt rennsli frá 1984
Upp úr árinu 1990 hóf Landsvirkjun af halda stöðugu rennsli niður Efra-Sog, í því augnamiði að styðja við endurreisn urriðastofnsins í Þingvallavatni. Þetta hefur aukið lífríki á svæðinu. Þá var komið fyrir hrygningarmöl við bakka báðum megin stíflu og leiddu rannsóknir í ljós að hrygning hófst í Efra-Sogi í kjölfarið. Einnig hefur Landsvirkjun stutt rannsóknir á urriðanum á vatnasvæðinu og seiðasleppingar, en veiði á urriða í Þingvallavatni hefur stóraukist á undanförnum árum og telst stofninn núna sjálfbær.

Hugmyndir um fiskveg voru endurvaktar árið 2012 og voru Gunnar Orri Gröndal hjá Verkís og Áslaug Traustadóttir hjá Landmótun fengin til að hanna mögulegan fiskveg. Hönnunarforsendur voru að hann félli vel að umhverfinu, nýttist að hluta til sem hrygningarsvæði fyrirr urriða, flytti nægt vatnsmagn til að uppfylla skilyrði um lágmarksrennsli í Efra-Sogi og væri fær stærri urriða úr Efra-Sogi í Þingvallavatn. Hönnun Gunnars og Áslaugar má sjá á meðfylgjandi mynd.

Fyrri greinFjöldi Selfyssinga í landsliðverkefnum
Næsta greinRaw valhnetupestó með kúrbítsspagettí