Landsvirkjun semur við landeigendur í Holtum

Landsvirkjun hefur að undanförnu hert á samningaviðræðum við landeigendur í kringum Holta­virkjun í Þjórsá.

Þannig var nýlega gengið frá samkomulagi við bónd­ann í Flagbjarnarholti í Holtum en helst er talið að hækkuð grunn­vatns­staða geti haft áhrif á land­gæði þar auk þess sem nokkurt land fer undir vatn. Þar getur það ráðist af mótvægisaðgerðum hve miklar breytingar verða.

Aðrar jarðir í nágrenninu eru minni og að sögn Jóns Olsen, sem á jörðina Þingholt ásamt konu sinni, hafa engar viðræður átt sér stað ennþá. Þau hafi í raun aðeins verið boðuð á einn fund. Eftir því sem komist verður næst hefur verið samið við flesta stærri eigendur en í einhverjum tilfellum er ósamið við eigendur minni jarða og sumarhúsaeigendur.

En hvaða hug skyldu nágranarnir hafa til framkvæmdanna? ,,Við erum hvorki sátt né ósátt, við tökum því sem að höndum ber og sjáum hvað verður,” sagði Jón í samtali við Sunnlenska.