Landsvirkjun semur við BÁ um auknar brunavarnir

Landsvirkjun (LV) hefur gert samstarfssamning við Brunavarnir Árnessýslu (BÁ) um auknar brunavarnir á rekstrarsvæði fyrirtækisins á Þjórsár- og Tungnaársvæði, vegna framkvæmda við stækkun Búrfellsvirkjunar sem eru að hefjast um þessar mundir.

Samkvæmt samningnum greiðir LV BÁ samtals 44 milljónir króna á sex ára tímabili, en BÁ mun auka við aðstöðu sína í Árnesi og bæta við búnað. Þá mun BÁ sjá alfarið um brunavarnir á virkjunarsvæðinu vegna framkvæmdanna, halda brunaæfingar tvisvar á ári og þjálfa starfsfólk Landsvirkjunar og verktaka sem vinna við stækkunina.

Þjórsár- og Tungnaársvæði eru stærsta rekstrarsvæði LV og fyrir er í gildi samningur milli BÁ annars vegar og LV og Landsnets hins vegar um brunavarnir þar og á Sogssvæði.

BÁ mun samkvæmt samningnum auka við aðstöðu sína í Árnesi, svo þar sé til staðar dælubíll, mannskapsbíll og búnaðarkerra með góðu aðgengi. Jafnframt mun aðstaða fyrir starfsmenn og búnað þeirra verða aukin til samræmis við þarfir. Með þessari bættu aðstöðu munu útkallsmöguleikar batna vegna atvika í stöðvum og á framkvæmdasvæðum LV á Þjórsár- og Tungnaársvæði.

Þá mun BÁ auka við búnað sinn í Árnesi, auk þess að staðsetja á framkvæmdasvæðinu við Búrfell lausa dælu, öndunarvarnir og annan búnað vegna fyrstu viðbragða á framkvæmdatíma, sem er áætlaður til september 2018.

Á meðfylgjandi mynd eru Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, Ari Björn Thorarensen, formaður Héraðsnefndar Árnesinga, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri orkusviðs hjá Landsvirkjun og Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs hjá Landsvirkjun.