Landsvirkjun fundar um framtíð Norðlingaölduveitu

Landsvirkjun hyggst funda með sveitar­stjórn Skeiða- og Gnúpverja­hrepps um framtíð Norðlingaöldu­veitu.

Málefni veitunnar og frið­lands í Þjórsárverum tóku nýja stefnu í síðustu viku með ákvörðun stjórn­valda um stækkun friðlandsins sem mögulega gæti breytt fyrri áformum um vatnsöflun fyrir virkj­anir Landsvirkunar neðar í Þjórsá.

Jón Vilmundarson í Skeið­háholti, hreppsnefndarmaður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur átt sæti í sérstakri ráðgjafanefnd um friðun Þjórsárvera. Hann segir nefnd­ina hafa unnið gagnmerkt starf hvað varðar útfærslu á stækkun friðlands og skilmálum þess. Það sé nokkuð sérstakt að fá ekki að klára þá vinnu í ljósi þess að nokkuð góð sátt væri að myndast um það í hverju friðlýsing ætti að felast.

Undir það tekur Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Suður­kjör­dæmis, sem gagnrýnir stjórnvöld einnig fyrir einstefnu í málinu og verið sé að ganga framhjá Alþingi í því efni. „Það er ólýðræðislegt að taka málið frá löggjafarvaldinu,“ segir Sigurður Ingi.

Tilgangurinn með Norðlingaöldu­veitu er að stífla Þjórsá talsvert neðan við Þjórsárver og mynda með því um fimm ferkílómetra lón. Til samanburðar er Apavatn um 13 ferkílómetrar að stærð. Frá lóninu yrðu grafin aðrennslisgöng til Þóris­vatns (86km2) í þeim tilgangi að auka rafmagnsframleiðslu úr virkjunum við Vatnsfell, Sigöldu, Hrauneyja­foss og Búðarháls.