Landsnet býður út 40 km af jarðstrengjum

Landsnet hefur hafið útboð vegna jarðvinnu og lagningar Selfosslínu 3 annars vegar og Hellulínu 2 hins vegar

Selfosslína 3 er 25 km langur 66 kílóvolta (kV) jarðstrengur milli Selfoss og Þorlákshafnar sem á að auka afhendingaröryggi raforku í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Rekstraráreiðanleiki vestari hluta svæðiskerfisins á Suðurlandi er frekar takmarkaður í dag og því verður mikill ávinningur af hringtengingu svæðisins með umræddum streng að mati Landsnets.

Ráðgert er að leggja strenginn að mestu meðfram vegum sem fyrir eru á svæðinu og miðast útboðsgögnin við að verkinu verði að fullu lokið 15. nóvember nk.

Hellulína 2 er 13 km langur 66 kV jarðstrengur meðfram Suðurlandsvegi frá tengivirki við Hellu að tengivirki við Hvolsvöll. Strengurinn mun auka flutningsgetu og afhendingaröryggi á svæðinu en hann leysir af hólmi núverandi loftlínu, Hellulínu 2 frá 1948, sem er með elstu línum í flutningskerfinu og þarfnast orðið endurnýjunar.

Áætluð verklok eru 15. október nk. samkvæmt útboðsgögnum.

Útboðsfrestur rennur út 18. mars vegna Selfosslínu 3 og hins vegar 20. mars vegna Hellulínu 2.

Fyrri greinForeldrar vilja fá borgað fyrir að keyra börn sín í leikskólann
Næsta greinJötunn vélar gáfu iPad á göngudeildinar