Landsbankinn eignast lóðir í mjólkurbúshverfinu

Landsbankinn hefur eignast lóðir í svokölluðu mjólkurbúshverfi í austurhluta Selfoss, alls um 7500 fermetra við Austurveginn.

Þetta kom fram á fundi sveitarstjórnarmanna í Árborg með íbúum hverfisins nýlega þar sem rætt var um ástand og framtíð bygginga í hverfinu.

Að sögn Eyþórs Arnalds formanns bæjarráðs Árborgar var jákvæður andi á fundinum og fundarmenn sammála að byggð á svæðinu yrði láreist íbúðabyggð en ekki verslunar eða þjónustusvæði.

Enn er inni í myndinni að sögn Eyþórs að þar verði einhverskonar þjónustuíbúðir fyrir aldraðra, en næsta skref sé að ræða við fulltrúa bankans.

Hvað varðar byggingar á svæðinu sem nánast allar eru mjög illa farnar segir Eyþór að bæta þurfi ásýnd svæðisins sem fyrst og í raun geti rústir húsanna verið hættulegar. „Við munum kynna bankanum afstöðu bæjarins og íbúanna í hverfinu og komumst vonandi lengra með málið í framhaldinu.“

Fyrri greinFuglaskoðun í friðlandinu
Næsta greinRagnar leikur með Þórsurum