Landsbankahúsið á Selfossi til sölu

Landsbankinn á Selfossi. Mynd úr safni.

Landsbankahúsið við Austurveg 20, eitt þekktasta kennileiti Selfossbæjar, er komið á sölu. Söluverðið er ekki gefið upp en óskað er eftir tilboði í húsið.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að breytingar á bankaþjónustu valdi því að útibúið þarf nú minna húsnæði undir starfsemi sína. Gert er ráð fyrir að útibúið verði áfram í húsinu þar til að starfsemi þess getur hafist á nýjum stað á Selfossi. Í samtali við sunnlenska.is sagði Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, að ekkert væri ákveðið varðandi nýja staðsetningu. „Ef húsið selst stefnum við að því að semja við nýja eigendur um að vera áfram í húsinu þar til við finnum nýtt og hentugra húsnæði á Selfossi,“ sagði Rúnar.

Árborgir fasteignasala og Lögmenn Suðurlandi annast söluna. Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum. Brunabótamat hússins er rúmlega 450 milljónir króna og fasteignamatið rúmlega 200 milljónir króna.

Landsbankahúsið er byggt á árunum 1949-1953, eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar og er það friðað að utanverðu. Húsið er alls rúmlega 1.200 fermetrar og í lýsingu fasteignasala kemur fram að það sé íburðarmikið og gæti hentað undir ýmiskonar starfsemi. Í risi hússins er meðal annars nýlega innréttað veislueldhús og borðsalur. 

Húsið stendur á rúmlega 7.300 fermetra eignalóð og því fylgir 77 fermetra bílskúr. Hluti hússins er í útleigu og fylgja þeir leigusamningar sem eru í gildi með í kaupunum.

Frétt á vef Landsbankans

UPPFÆRT KL. 22:17

Fyrri greinVæri gaman að vera Páll Óskar
Næsta greinSelfoss aftur upp í 1. deild