Landris vegna kvikusöfnunar í Torfajökulsöskjunni

Löðmundur séð til suðausturs, Frostastaðavatn bak við fjallstoppinn og Torfajökull í bakgrunni til hægri. Ljósmynd © Mats Wibe Lund - mats@mats.is

Ný gögn sýna landris í miðri Torfajökulsöskjunni. Landrisið mælist nokkrir sentimetrar en sést bæði í InSAR og GPS gögnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni en af gögnum að dæma hófst landrisið um miðjan júní. Líklegasta túlkunin á þessu stigi er sú að ný kvika sé að safnast fyrir á dýpi og valda þenslu í eldstöðinni.

Á næstu vikum verður lagt kapp á að greina gögnin frekar og reikna líkön til að skorða dýpi og umfang kvikunnar. Engin marktæk breyting er á jarðskjálftavirkni síðan að landrisið hófst.

Staðan í Torfajökulseldstöðinni var eitt af því sem var rætt á landtímavöktunarfundi á Veðurstofunni í gær.

Í færslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands á Facebook segir að þetta séu merkilegar fréttir, enda hefur eldstöðin sjálf verið tiltölulega róleg í þúsundir ára. Tvö eldgos hafa orðið á svæðinu á sögulegum tíma, við landnám og aftur 1477. Þau eldgos urðu hinsvegar vegna kvikuinnskota sem áttu uppruna sinn í fjarlægum eldstöðvarkerfum.

Fyrri greinFjölbreytt dagskrá á Blómstrandi dögum
Næsta greinHver leikstýrir Svf. Árborg?