Landgræðsluskóli SÞ í heimsókn í Gunnarsholti

Árlega kemur hingað til lands hópur fólks frá Mið-Asíu og Afríku sunnan Sahara sem stundar nám í sex mánuði við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn heimsótti Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti í dag.

Skólinn, sem er fjármagnaður af utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunarsamvinnu Íslands, er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands sem einnig fer með rekstur skólans og hýsir hann að Keldnaholti í Reykjavík.

Nemarnir við Landgræðsluskóla HSþ eru í ár 13 talsins, sjö konur og sex karlar sem koma frá sjö mismunandi löndum eða tveir nemar frá Kirgistan og þrír frá Mongólíu í Mið-Asíu og frá Afríku komu tveir frá Eþíópíu, einn frá Gana, tveir frá Malaví, einn frá Namibíu og tveir frá Úganda.

Árið 2010 var gerður samningur við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um að Landgræðsluskólinn yrði hluti af neti háskólans. Hlutverk Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að lausn aðkallandi vandamála er varða mannkynið allt og umhverfi þess með því að stunda rannsóknir, veita ráðgjöf og efla þekkingu. Auk Landgræðsluskóla HSþ eru þrír aðrir sérhæfðir skólar á Íslandi sem einnig tilheyra neti HSÞ: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Jafnréttisskólinn.

Frá því að fyrstu nemarnir útskrifuðust úr skólanum árið 2007 hafa 63 nemar lokið námi úr Landgræðsluskólanum, 30 konur og 33 karlar. Náminu er skipt upp í nokkra hluta þar sem bæði fer fram bókleg kennsla og verklegar æfingar. Sérfræðingar við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins eru meginuppistaðan í kennaraliðinu auk nokkurra alþjóðlegra gestakennara og stundakennara frá ýmsum stofnunum. Hver nemi vinnur að rannsóknarverkefni á meðan á dvöl þeirra stendur undir handleiðslu leiðbeinanda og þurfa verkefnin að nýtast og tengjast starfi nemanna í þeirra heimalandi. Allir nemarnir eru sérfræðingar á sínu sviði og starfsmenn samstarfsstofnana Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu, þ.a.m. háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir sem og sveitarfélög, ráðuneyti og aðrar stjórnsýslustofnanir.

Heimasíða Landgræðslunnar

Fyrri greinBrotist inn við Sogsbakka
Næsta greinVilja kirkjumiðstöð á Selfossi