Landgræðslufélag Hrunamanna fékk Landgræðsluverðlaunin 2016

Í dag voru Landgræðsluverðlaunin 2016 voru afhent í Sagnagarði í Gunnarsholti. Verðlaunahafar að þessu sinni voru Landgræðslufélag Hrunamanna og hjónin Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir á Þingeyrum í A-Húnavatnssýslu.

Þetta var í 26. sem Landgræðsla ríkisins veitir þessi verðlaun en Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum. Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli á mikilvægu starfi margra áhugamanna að landgræðslumálum.

Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra.

Landgræðslufélag Hrunamanna var stofnað í upphafi árs 2008 en segja má að félagið hafi sprottið af áhuga manna á landbótum á Hrunamannaafrétti sem hafði staðið yfir um árabil. Þar komu við sögu sveitarfélagið, Kiwanisklúbburinn og sauðfjárbændur. Saga landgræðslu Hrunamanna er því mun eldri en landgræðslufélagið sjálft, en Landgræðslufélag Hrunamanna sameinaði þessa krafta.

Árið 1970 girti Landgræðslan af svæði fremst á afréttinum, rétt ofan Gullfoss og hefur síðan verið unnið þar að landgræðslu. Mikið rof var á þessu svæði, landið víða örfoka og stakar gróðurtorfur voru að blása upp. Svæðið hefur tekið miklum stakkaskiptum þó enn sé nokkuð í að land sé fullgróið.

Ýmsar að ferðir hafa verið reyndar innan landgræðslugirðingarinnar auk sáningar grasfræja og áburðargjafar, s.s. sáning birkifræja, gróðurseting smárahnausa, víðisprota, lúpínu og heyþakning. Síðast en ekki síst var þar gerð tilraun með nýtingu seyru til landgræðslu með góðum árangri.

Árið 1992 hófu sauðfjárbændur uppgræðslu í Stóraveri en þar voru opin rofabörð og moldir sem tekist hefur að loka að mestu og er þar nú gróið land. Árið 2004 var farið að græða upp land við Svínárnes sem er innar á afréttinum.

Landgræðslufélag Hrunamanna heldur landgræðsludag í júní ár hvert þar sem unnið er eftir samþykktri landbótaáætlun fyrir Hrunamannaafrétt vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt, en landgræðslufélagið tók að sér ábyrgð á framkvæmdum í því verkefni.