Í sumar gerðu Bláskógabyggð og Mountaineers of Iceland með sér samning um uppgræðslu lands í Hólalandi, rétt austan við Sandá, sem er jörð í eigu Bláskógabyggðar.
Samningurinn gerir ráð fyrir að um það bil 100 hektara svæði verði grætt upp og með þeim aðgerðum yrði bundið kolefni í gróðri og jarðvegi. Hugmynd að þessu verkefni kviknaði hjá starfsfólki Mountaineers sem vildi beita öllum ráðum til að varðveita náttúru Íslands. Fram kom hjá starfsmönnum Mountaineers við undirritunina að landgræðsla ynni gegn hlýnun jarðar og hægði á bráðnun jökla. Því hefði verið ákveðið að hefja landgræðslu sem er viðurkennd aðferð í baráttunni við loftlagsbreytingar. Mountaineers er ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í jeppa og vélsleðaferðum á Suður og Vesturlandi.
Til að ná markmiðum samningsins gerðu Mountaineers og Landgræðsla ríkisins annan samning um aðkomu Landgræðslunnar að verkinu á árinu 2017. Samkvæmt honum tekur Landgræðslan að sér að kortleggja svæðið og skrá ástand þess, með tilliti til gróðurfars, jarðvegsrofs, grjóts og sands á yfirborði auk annarra þátta sem nauðsynlegt er að þekkja áður en hafist er handa við uppgræðslu svæðisins sem og til að meta árangur aðgerða.
Skýrsla um ástand svæðisins verður unnin á grundvelli kortlagningarinnar þar sem ofangreindum þáttum eru gerð skil og Landgræðslan mun vinna heildstæða uppgræðsluáætlun fyrir svæðið. Í uppgræðsluáætlun kemur fram hver eru markmið með uppgræðslunni, hvaða uppgræðsluaðferðum er beitt til að ná fyrrgreindum markmiðum, hve langan tíma tekur að ná þeim markmiðum o.fl.
Fram kemur í samningum að Landgræðslu ríkisins er heimilt að nýta og birta rannsóknarniðurstöður og gögn um þá þætti sem samningurinn tekur til eins og um hefðbundin uppgræðslusvæði væri að ræða. Að sama skapi er Mountaineers einnig heimilt að nýta sér þessa sömu þætti í sinni starfsemi.