Landeyjahöfn lokuð næstu daga

Ekki verður hægt að opna Landeyjahöfn næstu daga vegna gosefna sem borist hafa með þrálátri austanátt í mynni nýju hafnarinnar.

Dæling úr höfninni er ekki hafin en sanddæluskipið Perlan liggur bilað við höfn í Reykjavík. Áætlað er að það sigli austur í Landeyjahöfn á morgun.

Ákveðið hefur verið að Herjólfur sigli því næstu daga til Þorlákshafnar eða þar til Landeyjahöfn opnar. Unnið er að áætlun fyrir næstu daga en farnar verða tvær ferðir á dag.