Landeyjahöfn hugsanlega lokuð í vetur

Rætt hefur verið um að loka alfarið fyrir siglingar Herjólfs um Landeyjahöfn í nokkra mánuði næsta vetur vegna óvissu um aðstæður.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að í maí síðastliðnum var settur á laggirnar samstarfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins, Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar, Eimskips og Vestmannaeyjabæjar til að meta aðstæður í höfninni og setja saman aðgerðaáætlun ef til þess kæmi að loka fyrir siglingar um hana næsta vetur.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ítrekar að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að loka höfninni yfir veturinn. „Samstarfshópurinn mun miðla upplýsingum sín á milli og veita mér reglulegar upplýsingar með skipulögðum hætti,” segir Ögmundur í samtali við Fréttablaðið. „Það er ekki svo að málið sé í einhverri upplausn, nema síður sé.”

Ráðherra bendir á þær óviðráðanlegu aðstæður sem hafa valdið því að Herjólfur hefur ekki náð að sigla sem skyldi um Landeyjahöfn, en hún var lokuð frá 14. janúar síðastliðnum, til 4. maí. Það gerir um sautján vikur. „Við verðum að greina á milli þess sem við ráðum við og þess sem við ráðum illa við,” segir Ögmundur.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er sterkur vilji hjá Eimskipi, sem á og rekur Herjólf, til að loka höfninni um tíma. Verið er að skoða að hafa hana opna fram í desember eða janúar en loka svo í nokkra mánuði og sigla þá frá Þorlákshöfn.