Landeyjahöfn er Rangæingur

„Hún er hér í Austur-Landeyjum og hún er Rangæingur,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, um Landeyjahöfn í þættinum „Að sunnan“ sem verður sýndur á N4 kl. 18:30 í dag.

Í sumar verða liðin fimm ár frá opnun hafnarinnar. Ísólfur Gylfi segir að Rangárþing eystra hafi ekkert um höfnina að segja og hafi gert athugasemdi um það við Vegagerðina. „En þeim finnst eðlilegra að Vestmannaeyingar stýri þessari höfn,“ segir sveitarstjórinn.

Ísólfur Gylfi segir að Landeyjahöfn hafi mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum. Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var fyrir Rangárþing eystra hefur ferðamönnum þar fjölgað um 157% frá árinu 2008, en talið er að um 770.000 ferðamenn fari um sveitarfélagið á ári.

Í þættinum er einnig rætt við Steinar Magnússon, skipstjóra á Herjólfi, sem segir að nýr Herjólfur sem rætt er um að smíða sé of lítill. „Þetta er sjálfsagt ágætis skip en ég hefði byggt stærra skip ef ég hefði ráðið,“ segir Steinar.

Þátturinn „Að sunnan“ á N4 í umsjón Margrétar Blöndal og Sighvats Jónssonar er endurtekinn á klukkustundarfresti til kl. 18.30 á morgun, einnig er hægt að sjá þáttinn á n4.is.

Fyrri greinGanga yfir Mýrdalsjökul í minningu Guðsteins
Næsta greinStyrktartorfæra í Stapafelli á sunnudag