Land undir hreinsistöð kostar 15 milljónir

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt kaup á landspildu úr landi Litlu-Sandvíkur vegna hreinsistöðvar fráveitu á Selfossi. Spildan er 4,3 hektarar og kaupverðið 15 milljónir króna.

Um er að ræða 4,3 hektara á svokölluðu Geitanesi, sem er tangi fyrir neðan Selfossflugvöll. Kaupverðið er 15 milljónir króna en seljendur eru systkinin Guðmundur, Sigríður og Ragnhildur, Lýðsbörn frá Litlu Sandvík.

„Mér finnst þetta alltof hátt verð, þar sem verið er að borga 3,5 milljónir króna fyrir hektarann en kaupverð á góðri byggingahæfri lóð í þéttbýlinu er um tvær milljónir, þetta er út í hött“, segir Helgi Haraldsson, oddviti Framsóknarflokksins í Árborg um málið.

Hann bókaði sérstaklega um málið á bæjarráðsfundi fyrir skömmu þar sem hann segir að kaup á landinu séu gerð þar sem sveitarfélaginu hefur verið stillt upp við vegg og það getur ekki annað en samþykkt, þrátt fyrir að verðið fyrir landið sé langt frá því að teljast eðlilegt.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar segist ekki telja að verðlagningin geti verið fordæmisgefandi. „Hér er um að ræða sérstakar aðstæður og kaupin helgast af brýnni þörf á þessu landi,“ segir hún. Verð þetta endurspeglist heldur ekki í öðrum nýlegum fjárfestingum á landi í grenndinni.