Land Roverinn fundinn – sást í nýrri vefmyndavél við Selfoss

Land Rover fornbifreið sem hvarf af bílastæði í Reykjavík um síðustu helgi og lýst hefur verið eftir er fundinn, og það í heilu lagi.

Bogi Auðarson, fulltrúi hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, sagði í samtali við sunnlenska.is að bíllinn hafa verið tekinn í góðri trú og unnið sé að úrlausn málsins.

Ábendingar höfðu borist um að bíllinn hefði sést á bílpalli á Suðurlandvegi og því athugaði lögreglan á Selfossi upptökur úr nýju vefmyndavélinni í útjaðri Selfossbæjar.

„FÍB vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem sendu inn ábendingar auk lögreglunnar á Selfossi. Ný vefmyndavél lögreglunnar á Selfossi gerði lögreglunni kleift að fylgja eftir ábendingum samborgara og fá botn í málið. Nýja vefmyndavélin sannaði því gildi sitt og eykur einnig öryggi vegfarenda,“ sagði Bogi ennfremur.

Bíllinn er í eigu FÍB en til stendur að gera hann upp og útbúa hann og merkja sem þjónustubíl FÍB eins og þeir voru á árunum 1960-1970. Bíllinn verður síðan varðveittur á bíla- og vélasafni á Reykjanesi.

Fyrri greinNesey bauð best í gámasvæðið
Næsta greinFékk 200 þúsund króna sekt fyrir utanvegaakstur