Lambastaðir og Hraunmörk eru framúrskarandi

Tvö ferðaþjónustubýli í Flóahreppi hlutu viðurkenninguna „Framúrskarandi ferðaþjónustubæir“ á uppskeruhátið Ferðaþjónustu bænda í vikunni.

Viðurkenningin er veitt fyrir einstaka frammistöðu á árinu og byggist matið á umsögnum gesta og þeim gæðum sem staðirnir standa fyrir að mati skrifstofu Ferðaþjónustu bænda.

Rökstuðningur Ferðaþjónustu bænda fyrir þessum viðurkenningum var á þessa leið:

Lambastaðir
Þessi bær lætur ekki mikið yfir sér frá þjóðvegi nr. 1 í nágrenni Selfoss og má því segja að hér sé falin perla fyrir þá sem vilja njóta þæginda, persónulegrar þjónustu, kynnast sveitalífinu og kannski skella sér í dagsferð upp í Landmannalaugar. Herbergin sem eru með sérbaði eru vel útbúin og morgunverðarsalurinn bjartur og á veggjum prýða stemningsmyndir úr sveitinni. Á staðnum geta gestir skellt sér í heita pottinn, farið í gufu, spjallað og fengið ráðleggingar eða innsýn í sveitalífið hjá þeim Svanhvíti og Almari. Auk gistingarinnar bjóða þau upp á skipulagðar jeppaferðir sem eru m.a í sölu hjá okkur og styður þannig enn frekar undir fjölbreytta upplifun gesta hjá okkar félögum, þ.e. sjálfum heimamönnum. Gestir geta því vænst innihaldsríkrar dvalar hjá þeim Svanhvíti og Almari.

Hraunmörk
Eins og nafnið gefur til kynna er staðurinn Hraunmörk „Icelandic Cottages“ umvafið hrauni í stað búskapar en tengingin við náttúruna og persónulega þjónustu er skýr. Fyrsta sumarið var eitt hús tilbúið en nú eru þau orðin fjögur en alltaf hefur verið passað vel uppá að halda raski v/framkvæmda í lágmarki. Rósa og Freyr gestgjafar hafa einstakt lag á því að gera hlutina óaðfinnanlega og eru sumarhúsin merki um það enda eru þau einstaklega smekkleg og vel útbúin. Þau gera miklar kröfur til sjálfs síns og annarra (þ.á.m. okkar á skrifstofunni) varðandi þjónustu við gesti og ljóst að þau bera mikla umhyggju fyrir sínum gestum og lesa út úr þörfum hvers hóps fyrir sig. Algjörlega til fyrirmyndar!

Fyrri greinTrausti kynnir „Mótun framtíðar“
Næsta greinSelfoss vann tveggja marka sigur