Lágt verð og mikið vöruúrval

Verið er að leggja lokahönd á hönnun nýju Nettóverslunarinnar á Selfossi og ráðning starfsfólks er að hefjast.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá mun Nettó opna verslun að Austurvegi 42 á Selfossi í vor. Um er að ræða rúmlega 1.000 fermetra verslunarrými á besta stað í bænum.

Í tilkynningu frá Nettó kemur fram að verslunin verði byggð upp í sama stíl og aðrar Nettó verslanir, sem viðskiptavinir eru mjög ánægðir með. Lögð verður áhersla á lágt verð og mikið vöruúrval.

Úðunarkerfi í grænmetistorgi viðheldur lengur ferskleika ávaxta og grænmetis, úrval dagvöru verður mikið og hefðbundin sérvara á góðu verði verður á sínum stað. Sett verður upp „Bakað á staðnum“ sem slegið hefur í gegn í Nettó verslunum, enda gæðin mikil, verðið lágt og öflug tilboð.

„Nettó mun vinna ötullega að því að gera íbúum og gestum Selfoss kleift að gera hagstæð innkaup á samkeppnishæfum verðum auk þess að bjóða ávallt uppá fjölbreytt tilboð. Við hvetjum því viðskiptavini til að velja Nettó sem fyrsta valkost við heildar innkaup til heimilisins,“ segir í fréttatilkynningunni.