Lágreist byggð í Mjólkurbúshverfinu

Baráttu íbúa Mjólkurbúshverfisins á Selfossi gegn blokkaráformum er lokið. Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt að lækka leyfilegt nýtingarhlutfall Austurvegs 51-59, úr 1 niður í 0,6.

Áfram er þó stefnt að byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða, með allt að 60 hjúkrunarrýmum, en í einnar hæða byggingum.

Árið 2007 samþykkti þáverandi bæjarstjórn Árborgar deiliskipulag að tveimur, fimm hæða þjónustubyggingum fyrir aldraða við Austurveginn. Íbúar í Mjólkurbúshverfinu kærðu ákvörðunina til Skipulagsstofnunar á þeirri forsendu að mannvirkin samræmdust ekki fyrirliggjandi byggð og yrðu til þess fallin að rýra verðmæti þeirra íbúðarhúsa sem féllu í skugga blokkanna.

Aldrei varð af framkvæmdum og Landsbankinn eignaðist lóðina, ásamt byggingarétti, árið 2010.

Fyrr á árinu funduðu bæjaryfirvöld með um þrjátíu íbúum hverfsins. Þeir ítrekuðu þá ósk að fallið yrði frá háreistri byggð. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, segir að bæjaryfirvöld hafi í kjölfarið tilkynnt Landsbankanum um breytingar á leyfilegu byggingamagni.

„Við hugðumst eyða óvissu íbúanna um að hverfið lendi í skugga himinhás veggs,“ segir Eyþór.

Lítil prýði er af íbúðarhúsum við Austurveg 51-59 um þessar mundir, eftir að stórhuga verktakar keyptu húsin til niðurrifs á sínum tíma. Eyþór segir það sinn skilning að Landsbankinn muni taka til á lóðunum. Óvíst er hvenær hafist verður handa við framkvæmdir á fyrirhuguðum þjónustuíbúðum.

Fyrri greinRútuferð – uppspretta hugmynda
Næsta greinSelfoss lá gegn meisturunum