Lagningu jarðstrengs lokið á Kili

Ljósmynd/Rarik

RARIK hefur nú lokið við lagningu tæplega 67 km jarðstrengs frá Geldingafelli á Bláfellshálsi til ferðaþjónustuaðila á Kjalvegi en þar með tengjast meðal annars bæði Hveravellir og Kerlingafjöll raforkukerfinu.

Verkið gekk mjög vel og má þakka það góðu haustveðri og góðri vinnu þeirra sem að verkinu komu. Vinnuflokkur RARIK á Suðurlandi leiddi vinnuna, sá um tengingar, uppsetningu spennistöðva og eftirlit með verkinu og verktakafyrirtækið Þjótandi sá um að plægja niður strenginn.

Á næstu dögum verður unnið að því að afmá eins og hægt er ummerki um lagninguna og einnig verður byrjað að setja upp búnað í nýja spennistöð við Brú og spólur til að jafna út launafl í strengnum.

Ætla má að í byrjun desember næstkomandi verði strengurinn spennusettur og þá mun vistvænt rafmagn leysa af hólmi rafmagn sem fram til þess tíma hefur verið framleitt með jarðefnaeldsneyti.

Fyrri greinKjúklingur innkallaður vegna gruns um salmonellu
Næsta greinAnna Jóa – listamannsspjall og leiðsögn