Lagfæringar á Eyrarbakka

Nú er unnið að lagfæringum við götur á Eyrarbakka þar sem skipta á um ljósastaura og helluleggja gangstéttir.

Annars vegar er um að ræða hellulagningu við gangstéttir norðan við Eyrargötu og á milli Álfsstéttar og Háeyrarvegar. Það verk er unnið af Bergþóri ehf, áætluð verklok eru í lok ágústmánaðar og mun það kosta 13,3 milljónir króna.

Hins vegar á að skipta um ljósastaura í þorpinu og samkvæmt Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar, verða settir lægri staurar sem falla betur að götumyndinni. HS-veitur munu sjá um þá vinnu.