Lá við stórslysi í Landeyjahöfn

Rannsóknarnefnd sjóslysa skoðar atvik sem varð við Landeyjahöfn fyrir rúmri viku þegar Herjólfur snerist og stefndi að öðrum varnargarði hafnarinnar.

Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpsins og telja heimildamenn RÚV að legið hafi við stórslysi en um 300 farþegar voru um borð, flestir ungir fótboltastrákar. Upptaka úr öryggismyndavél sýnir að atvikið gerðist á innan við mínútu.

Miklar tafir urðu á siglingum Herjólfs um Landeyjahöfn í gær vegna veðurs og sjólags. Jón Arilíus Ingólfsson, forstöðumaður rannsóknarnefndar sjóslysa, segir í samtali við Ríkisútvarpið að fólk þurfi að hafa í huga að öldufar geti verið annað en veðurlag.

Þannig hafi það til dæmis verið um klukkan níu sunnudagsmorguninn 26. júní síðastliðinn. Alda sem kom úr suðaustri fór undir Herjólf að aftanverðu um 300 metrum framan við hafnarmynnið. Skipið snerist til vesturs og stefndi á sjálfan varnargarðinn, en ekki svokallaða öryggisleiðara sem eiga að draga úr höggi.

Samkvæmt upplýsingum Siglingastofnunar var Herjólfur allan tímann í öruggri fjarlægð frá varnargarðinum, minnst hafi verið um 140 metrar milli skips og garðs. Ákveðnar aðstæður hafi hins vegar leitt til þess að erfitt hafi verið að stjórna skipinu. Siglingastofnun ætlar að setja upp svokallaða straummæla í Landeyjahöfn og um borð í Herjólfi til að auðvelda skipstjórum að meta straumfall við höfnina.

Rannsóknarnefnd sjóslysa fékk ábendingu um atvikið frá sjónarvotti í Landeyjahöfn. Óskað hefur verið eftir gögnum úr öryggismyndavél Eimskips. Atvikið er vel greinanlegt í gögnum frá ferilskráningu vaktstöð siglinga. Þar komi fram að Herjólfur hafi snúist rúmar 30 gráður sem sé mikið við þessar aðstæður.

Jón Arilíus játar því að hætta hafi verið á ferðum en snarræði skipstjóra Herjólfs hafi bjargað því að ekki fór verr. Nefndin hafi áhyggjur af aðstæðum við Landeyjahöfn þar sem nú sé miðað við að sigla ekki þegar ölduhæð er meiri en tveir og hálfur metri. Atvikið sýni að það verði að virða þau mörk, en ölduhæð hafi verið á bilinu 2,4 til 2,8 metrar þennan sunnudagsmorgun.

Frétt Ríkisútvarpsins