Læknaskortur getur lengt biðtíma

Útlit er fyrir að ekki fáist læknar til starfa við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á næstu mánuðum en vonir eru bundnar við að úr vandanum leysist eftir áramót.

Þetta segir Óskar Reykdalsson framkvæmdastjóri lækninga við stofnunina. Sem stendur vantar lækni í heila stöðu í Rangárvallasýslu og auglýst hefur verið eftir læknum við sjúkrahúsið á Selfossi.

„Við höfum þar að auki ekki fengið kandídata eins og oft áður en það gæti breyst eftir áramót,“ segir Óskar. Hann telur ólíklegt að reynt verði að leysa bráðavanda með samningum við lækna í verktakastöðum, slíkt sé dýrt og óhagkvæmt, einkanlega til lengri tíma litið.

Ástæðuna fyrir læknaskortinum rekur Óskar til þess að margir ungir læknar skili sér ekki til starfa á Íslandi að loknu námi erlendis, í sama mæli og áður.

Óskar segir að biðtími eftir læknisskoðun kunni að lengjast, einkanlega á Selfossi þegar fram í tímann sækir, en það sé vissulega tengt álagi. „Við höfum getað haldið þessu í sama horfi með því að fá menn á vaktir,“ segir hann. Sé um bráðan vanda að ræða sé móttakan ávallt opin á Selfossi.

Fyrri greinStyttist í útboð almenningssamgangna
Næsta greinFrostrósir verða á Selfossi