Lækkar greiðslubyrði um 8 til 9 milljónir

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt að skuldbreyta tveimur lánum upp á samtals um 100 milljónir króna. Að sögn Eyglóar Kristjánsdóttur, sveitarstjóra, lækkar greiðslubyrði sveitarfélagsins um 8 til 9 milljónir króna við breytinguna.

Bæði er það vegna þess að lánstími er lengdur og einnig fást lægri vextir af lánunum. Samið er við Lánasjóð sveitarfélaga og verða fjármunirnir meðal annars notaðir til að greiða upp bankalán.

Annars vegar er um að ræða lán frá Lánasjóðinum upp á 59 milljónir króna til 22 ára. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins. Er lánið tekið til endurfjármögnunar lána sem tekin voru vegna byggingar íþróttahúss og sundlaugar. Jafnframt var sveitarstjóra heimilað að skuldbreyta tveimur lánum hjá Lánasjóðinum, samtals að fjárhæð 44 milljónir króna, til 22 ára. Er lánið tekið til endurfjármögnunar lána sem eru með uppgreiðsluheimild.

Fyrri greinÍ gæsluvarðhald til 15. nóvember
Næsta greinKaupa sessur í skólabílana