Læknaskortur á HSu

Við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru 4,5 stöðugildi lækna ekki setin og illa gengur að manna lausar stöður.

Að sögn Óskars Reykdalssonar, framkvæmdastjóra Lækninga HSu, hefur tekist nokkuð vel að halda í lækna við stofnunina á undanförnum árum. Núna sé staðan heldur að versna og blikur á lofti.

„Læknar eru ýmist í leyfum eða hættir störfum. Þetta er 10-20% færri læknar en fyrir einu ári og bitnar það auðvitað á þjónustu lækna sem er þá að sama skapi minni. Þeir sem eftir eru leggja meira á sig og reyna að mæta þörfinni eftir bestu getu,“ segir Óskar í pistli á heimasíðu HSu.

„Til langs tíma gengur þetta auðvitað ekki og því nauðsynlegt að vinna að því að fá lækna til baka eða fylla skarð þeirra sem hætta.“