Lægri símkostnaður við kaup á farsímum

Elko og Tal hafa samið um að Elko muni hér eftir bjóða öllum sem kaupa farsíma hjá fyrirtækinu frínotkun hjá Tali.

Þannig geta þeir sem kaupa farsíma hjá Elko hér eftir lækkað mánaðarlegan símkostnað sinn sem frínotkuninni nemur. Ekki er vitað til þess að áður hafi slík frínotkun verið boðin með kaupum á GSM-símum utan verslana símafyrirtækjanna sjálfra.

Frínotkunin nemur 1.000 krónum mánaðarlega í tólf mánuði. Þeir sem þegar eru í viðskiptum við Tal fá frínotkunina sjálfkrafa en aðrir geta flutt símanúmer sitt til Tals eða fengið nýtt númer hjá Tali. Það verður hægt að gera á einfaldan hátt hjá sölufólki Elko þegar nýr sími er keyptur.

„Það skiptir máli að fyrirtækin í landinu leiti allra leiða til að halda verði á vörum og þjónustu sem lægstu. Viðskiptavinir Elko fá nú ekki bara farsíma á góðu verði heldur lækka þeir símreikninginn sinn á einfaldan hátt um leið og þeir kaupa nýja farsíma. Þetta samstarf Tal og Elko sýnir þannig að fyrirtækin eru að leggja sitt af mörkum í lækkun á vöruverði,“ segir Atli Rafn Viðarsson, sölustjóri Tals, í samtali við sunnlenska.is.