
Kýrnar í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi fengu að hlaupa út í sumarið eftir hádegi í dag en elstu menn þar á bæ muna ekki til þess að kúnum hafi verið hleypt svo snemma út.
„Ég hef aldrei hleypt þeim eins snemma út, þessi einmunatíð verður til þess að öll vorverkin eru á vel undan áætlun og ef það snöggkólnar ekki á næstu dögum þá býst ég við að fyrsti sláttur verði í þessum mánuði,“ sagði Ari Páll Ögmundsson, bóndi í Stóru-Sandvík, í samtali við sunnlenska.is.
Venjulega er kúnum hleypt út í lok maí eða byrjun júní og fyrsti sláttur er oft um miðjan júní. Það var skemmtileg stund í Stóru-Sandvík í dag þegar kýrnar hlupu út með tilheyrandi rassaköstum og tilþrifum.


