Kynntu eldfjallasvæðið frá Heklu til Eyja

Sameiginlegur kynningarbás Rangárþings eystra og Vestmannaeyja vakti mikla athygli á árlegri ferða- og landkynningu Icelandair á dögunum.

Að sögn Þuríðar Halldóru Aradóttur, markaðs- og kynningarfulltrúa Rangárþings eystra, hefur lengi staðið til að efla samstarf um ferðaþjónustu í Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjum og og fékk sýningarbás þessara aðila góðar viðtökur og lof gesta á kynningunni.

„Þarna var lögð áhersla á að kynna í einu lagi eldfjallasvæðið frá Heklu til Vestmannaeyja með nokkurri áherslu á Eyjafjallajökul, sem er orðið afar þekkt hugtak í huga erlendra gesta,“ sagði Þuríður í samtali við Sunnlenska.

„Mér heyrist á ferðaþjónustuaðilum að bókanir fari nú fram úr björtustu vonum, mikil aukning hefur orðið á bókun ferða- og gistiþjónustu frá því á sama tíma í fyrra,“ segir Þuríður.

Um 500 manns úr ferða- og markaðsþjónustu tóku þátt í sýningunni, þar af um 170 erlendir ferðakaupendur og skipleggjendur ferða.