Kynnisferð upp á hálendið

Suðurlandsdeild ferðaklúbbsins 4×4 er þessa dagana að hefja starfsár sitt en félagsfundir eru haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar.

Á fundina eru fengnir fyrirlesarar sem tengjast jeppamennsku, bæði breytingum og ferðalögum, svo sem veðurfræðingar, jöklafræðingar og ýmsir aðrir sem hafa eitthvað fróðlegt í sarpinum.

Laugardaginn 28. september hyggst deildin standa fyrir ferð fyrir áhugasama jeppaeigendur, hvort sem jeppinn er breyttur eða ekki. Lagt verður af stað kl. 9 að morgni frá Olís Arnbergi á Selfossi og komið til baka síðdegis sama dag. Keyrt verður til fjalla, ferðaáætlun fer svolítið eftir veðri og vindum. Þessi ferð er án endurgjalds og allir ferðast á eigin ábyrgð. Fararstjórar verða reyndir jeppamenn á öflugum bílum.

Í tilkynningu í deildinni segir að um sé að ræða upplagt tækifæri fyrir jeppaeigendur til að bjóða fjölskyldunni í jeppaferð. Ef vel tekst til er hugmyndin að stofna „Litlunefnd“ sem myndi svo standa fyrir jeppaferðum fyrir lítt eða óbreytta jeppa með reyndum fararstjórum. Brýnt er fyrir þátttakendum að akstur utan vega er ólöglegur og ferðast skal í sátt við náttúruna.

Áhugasömum er bent á að senda tölvupóst fyrir 27. september á netfangið f4x4sudur@gmail.com og gefa upp nafn og bílategund.

Fyrri greinHamar hikstaði undir lokin
Næsta greinNæst besta veiðisumarið að baki