Kynningarfundur hjá BFÁ

Þessa dagana eru björgunarsveitirnar að taka inn nýja meðlimi og á fimmtudagskvöld verður kynningarfundur fyrir áhugasama hjá Björgunarfélagi Árborgar.

Undanfarin ár hefur fjöldi þeirra sem hefja þjálfun hjá björgunarsveitum aukist mikið. Fólk á ýmsum aldri með afar víðtæka menntun og reynslu sækist nú eftir að gerast sjálfboðaliðar og taka þátt í starfinu.

Þetta er annað árið sem Björgunarfélag Árborgar heldur úti skipulögðu nýliðastarfi en í maí sl. útskrifuðust þrír efnilegir meðlimir úr nýliðastarfinu. Höfðu þeir þá lokið grunnþjálfun björgunarmanna og staðist nýliðapróf.

Nýliðar björgunarsveita fara í gegnum nokkuð strangt nám og þjálfun sem tekur u.þ.b. tvö ár og fer fram að mestu leyti á kvöldin og um helgar áður en þeir eru gjaldgengir í útköll. Námið felst m.a. í fyrstu hjálp, rötun, ferðamennsku, leitartækni, fjallamennsku og straumvatnsbjörgun svo eitthvað sé nefnt.

Kynningarfundurinn hjá Björgunarfélagi Árborgar hefst kl. 20 í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi fimmtudaginn 1. september.

Fyrri greinGríðarleg aðsókn í tónlistarnám
Næsta greinÓbreytt Útsvarslið í Árborg