
Eyjagöng ehf. efna í kvöld, þriðjudagskvöld, til opins kynningafundar fyrir Sunnlendinga í Hvolnum á Hvolsvelli klukkan 20:00. Þar verða kynnt áform félagsins um jarðgöng milli lands og Heimaeyjar, verkefni sem gæti haft víðtæk áhrif á byggðaþróun, atvinnulíf og samgöngur á Suðurlandi.
Göngin munu tengja saman sex sveitarfélög á Suðurlandi og gera þau að einu sameiginlegu atvinnu- og þjónustusvæði. Með tilkomu jarðganga skapast forsendur fyrir auknum samgöngum, sterkari innviðum og fjölbreyttari atvinnuþróun á öllu svæðinu.

Að sögn Haraldar Pálssonar, eins stofnenda félagsins, mun verkefnið jafnframt auka ferðaþjónustumöguleika verulega, bæði innanlands og gagnvart erlendum ferðamönnum. Þá opnast nýir útflutningsmöguleikar fyrir suðurlandsundirlendið með beinu aðgengi að Vestmannaeyjahöfn, einni bestu náttúruhöfn landsins.
„Svæðið sem göngin munu þjónusta telur íbúafjölda sem er sambærilegur við íbúafjölda alls Austurlands, sem undirstrikar mikilvægi verkefnisins í landsbyggðarsamhengi. Á kynningarfundinum í kvöld munum við gera grein fyrir næstu skrefum verkefnisins, þar á meðal fyrirhuguðum rannsóknum á jarðlögum milli lands og Heimaeyjar. Fyrstu áfangar rannsóknanna hefjast nú í mars með kjarnaborunum, sem eru lykilforsenda áframhaldandi undirbúnings,“ segir Haraldur en allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir á fundinn.
