Kyndlar og kossar biðu við heimkomuna

„Já, það beið mín hér hópur fólks um klukkan hálftvö að nóttu, það var virkilega skemmtilegt og óvænt,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson á Laugarvatni, sem sló sannarlega í gegn í lýsingum sínum frá íþróttaviðburðum á Ólympíuleikunum í London á dögunum.

Þegar Sigurbjörn kom heim á Laugarvatn beið hans hópur nágranna og íbúa á Laugarvatni, og var hópurinn búinn að raða upp kyndlum og kertum, fánum og skiltum í götunni þegar Sigurbjörn renndi í hlað.

„Við spjölluðum aðeins og skemmtum okkur,“ sagði Sigurbjörn í samtali við Sunnlenska. Honum var afhent viðurkenningarskjal með ýmsu því sem skrifað hafði verið um hann í íslenskum fjölmiðlum á meðan hann var í Lundúnum við sín störf. „Ég hafði auðvitað ekkert séð það,“ sagði hann.

Þá var honum veittur verðlaunapeningur sem á er letrað: Ólympíuhetja London 2012.

Sigurbjörn Árni var þarna að koma heim af sínum þriðju Ólympíuleikum. Hann segir það hafa verið mikla upplifun að starfa við leikana, að þessu sinni hafi álagið verið miklu meira, þar sem útsendingar voru fleiri, og á tveimur rásum. „Ég var þarna að störfum í ellefu daga, og þar af voru níu þar sem útsendingin stóð í sjö klukkustundir,“ segir hann, en því til viðbótar þurfi að vinna mikla undirbúningsvinnu fyrir hverja útsendingu. „Við vorum iðulega komnir á svæðið klukkan sjö á morgnana og héldum á hótelið um miðnætti,“ segir Sigurbjörn.

Sigurbjörn segir Breta hafa staðið frábærlega að leikunum og hann hrósar sjálfboðaliðum mest, allir hafi verið boðnir og búnir til að liðsinna gestum og keppendum eins og kostur var.

Aðspurður um hvað væri eftirminnilegast frá leikunum segir Sigurbjörn það vera laugardagskvöldið þegar breskir íþróttamenn unnu þrenn gullverðlaun í frjálsíþróttum fyrir framan 80 þúsund áhorfendur. Spennan hafi verið gríðarleg og hávaðinn og fagnaðarlætin svo mikil að allt hafi titrað og skolfið. „Það var ógleymanleg stund og gaman að verða vitni að slíku,“ segir hinn skeleggi lýsandi, nokkuð rólegur, enda kominn heim í Laugardalinn.

Fyrri greinLagfæringar á Eyrarbakka
Næsta greinElding sló út rafmagni