Kynbætur skila Sunnlenskum bændum 25 milljóna hagnaði

Erfðaframfarir hafa skilað íslenskum bændum aukningu í nyt sem nemur 33 kg af mjólk á grip á ári eða 1,2 kg próteins.

Ef afurðaaukningin er reiknuð til verðs þá nemur hún rúmlega 2.500 kr á grip á ári og er þá eingöngu verið að tala um framfarir í mjólkurmagni.

Fyrir 40 kúa meðalbú eru þetta rúmlega 100 þúsund kr á ári eða rúmlega 1 milljón króna á einum áratug. Við þetta má svo bæta framförum í öðrum eiginleikum og svo kostnaðarlækkun vegna færri gripa til þess að framleiða sama magn af mjólk.

Þessar upplýsingar koma fram í rannsókn Ágústs Sigurðssonar og Jóns Viðars Jónmundssonar og birtist í Icelandic Agricultural Sciences.

Guðmundur Jóhannesson, nautgriparæktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, segir að heimfæra megi þessa afurðabætingu beint yfir þau 250 kúabú sem megi finna á Suðurlandi, sem gerir 25 milljónir á ári. Guðmundur segir erfðaframfarir í íslenska kúastofninum fara heldur vaxandi og þær hafa verið mun meiri síðasta áratuginn en þar áður.

Það eru Bændasamtök Íslands sem hafa yfirumsjón með undaneldi nautgripa og skýrsluhaldi ásamt búnaðarsamböndunum.

Fyrri greinSýndargólf og kvikmyndir í Þjórsárstofu
Næsta greinGjaldtaka að hefjast í Silfru