Kynbætur skila Sunnlenskum bændum 25 milljóna hagnaði

Erfðaframfarir hafa skilað íslenskum bændum aukningu í nyt sem nemur 33 kg af mjólk á grip á ári eða 1,2 kg próteins.

Ef afurðaaukningin er reiknuð til verðs þá nemur hún rúmlega 2.500 kr á grip á ári og er þá eingöngu verið að tala um framfarir í mjólkurmagni.

Fyrir 40 kúa meðalbú eru þetta rúmlega 100 þúsund kr á ári eða rúmlega 1 milljón króna á einum áratug. Við þetta má svo bæta framförum í öðrum eiginleikum og svo kostnaðarlækkun vegna færri gripa til þess að framleiða sama magn af mjólk.

Þessar upplýsingar koma fram í rannsókn Ágústs Sigurðssonar og Jóns Viðars Jónmundssonar og birtist í Icelandic Agricultural Sciences.

Guðmundur Jóhannesson, nautgriparæktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, segir að heimfæra megi þessa afurðabætingu beint yfir þau 250 kúabú sem megi finna á Suðurlandi, sem gerir 25 milljónir á ári. Guðmundur segir erfðaframfarir í íslenska kúastofninum fara heldur vaxandi og þær hafa verið mun meiri síðasta áratuginn en þar áður.

Það eru Bændasamtök Íslands sem hafa yfirumsjón með undaneldi nautgripa og skýrsluhaldi ásamt búnaðarsamböndunum.