Kvistar fengu fyrstu verðlaun

Garðyrkjustöðin Kvistar í Reykholti fékk á dögunum fyrstu verðlaun þegar Umhverfisnefnd Bláskógabyggðar afhenti umhverfisverðlaun sveitarfélagsins. Þrjú fyrirtæki hlutu verðlaun fyrir snyrtilegar lóðir.

Ellefu fyrirtæki voru tilnefnd og vann umhverfisnefndin mat sitt út frá nokkrum viðmiðum eins og sjónrænum áhrifum, heildarsvip lóðar og erfiðleikastigi við viðhald. Eins voru gefin aukastig fyrir eitthvað sem þótti sérstakt.

Kvistar fengu fyrstu verðlaun en eigendur garðyrkjustöðvarinnar eru Hólmfríður Geirsdóttir og Steinar Á. Jensen. Margir tilnefndu Kvista og ekki að undra enda lóðin mjög snyrtileg. Þau fengu sérstakt aukastig fyrir að leggja bílunum á lóðinni í beina línu.

Annað sætið hlaut Fontana Spa á Laugarvatni þar sem falleg hönnun og snyrtileg aðkoma vekur athygli en lóðin fékk aukastig fyrir fallega hönnun. Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Fontana Spa, tók við verðlaununum fyrir hönd fyrirtækisins.

Þriðja sæti hlaut garðyrkjustöðin á Engi í Laugarási en eigendur hennar eru Sigrún Elfa Reynisdóttir og Ingólfur Guðnason. Á Engi er framleitt lífrænt ræktað grænmeti og kryddjurtir en þar er ekkert eitur notað til þess að halda illgresi niðri. Staðurinn fékk aukastig fyrir skemmtileg smáatriði og sniðugar útfærslur.

Fyrri greinLásu 40.000 blaðsíður
Næsta greinUngir harma ákvörðun þingflokksins