Kviknaði í hlaupahjóli í hleðslu á Eyrarbakka

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Seint í gærkvöldi kviknaði í rafmagnshlaupahjóli sem var í hleðslu inni í íbúðarhúsi á Eyrarbakka.

Húsráðandi brást skjótt við og náði að slökkva eldinn áður en hann breiddi úr sér og slökkviliðsmenn frá Selfossi mættu svo á vettvang og reykræstu íbúðina.

„Við mælum ekki með því að fólk sé að láta rafmagnshlaupahjól standa í hleðslu yfir nótt inni í íbúðarhúsum. Og þaðan af síður að breiða neitt yfir hjólin og nota þau sem fatahengi,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Nokkrir eldsvoðar hafa orðið af þessu tagi á höfuðborgarsvæðinu og frekar er mælt með því að hlaða hjólin utanhúss, eða inni í bílskúr.

Eldur í sinu við Stokkseyri
Þetta var ekki eina útkall helgarinnar hjá Brunavörnum Árnessýslu, því fyrsti sinueldurinn kviknaði austan við Stokkseyri á föstudagskvöld. Engar byggingar voru í hættu og slökkvistarf gekk vel að sögn Lárusar.

„Það hjálpar til að það er frost í jörðu, en gróður er allur þurr og við hvetjum fólk til að fara varlega með eld eins og staðan er núna,“ sagði Lárus ennfremur.

Fyrri greinFjögur tilboð bárust í Hamarshöllina
Næsta greinÞormar til liðs við Árborg