Kviknaði í út frá logandi sígarettu

Allt bendir til þess að eldurinn á Eyravegi 3 á Selfossi í gærkvöldi hafi kviknað út frá logandi sígarettu sem hent var af vangá í rusl fyrir aftan húsið.

Töluvert tjón varð á húsinu sem hýsir nytjamarkað Hvítasunnusafnaðarins. Markaðurinn verður lokaður í dag, í það minnsta. Eldurinn barst ekki inn í húsið en skemmdir urðu á vörum vegna reyks. Í sama húsi eru Alvörubúðin og Handverksskúrinn til húsa en ekki urðu skemmdir þar.

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin áður en slökkviliðið mætti á staðinn og er ljóst að ekki mátti á tæpara standa að eldurinn breiddist frekar út en húsið er komið til ára sinna, byggt úr timbri og holsteini og mikill eldsmatur í því.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi rannsakar eldsupptök og sagði varðstjóri lögreglunnar í samtali við sunnlenska.is að líkum megi leiða að því að logandi sígarettu hafi verið hent í gróður eða rusl fyrir aftan húsið og eldurinn hafi kviknað í kjölfarið.

Fyrri greinEldur í nytjamarkaðnum
Næsta greinSelfoss sigraði með yfirburðum