Kvenfélögin gáfu rannsóknartæki

Heilsugæslunni á Klaustri barst góð gjöf í lok nóvember frá Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps og Kvenfélaginu Hvöt.

Um er að ræða rannsóknartæki, CRP mæli, að verðmæti 180. 000 kr. Tækið sem um ræðir er notað til að greina hvort að sýking sé til staðar hjá sjúklingi og mun því auðvelda starfsfólki stöðvarinnar rétta greiningu og meðferð t.d. við alvarlegum sýkingum á borð við lungnabólgu, botnlangabólgu o.fl.

Umdæmi heilsugæslunnar er stórt og víðfeðmt, fjarlægðir miklar og nokkur vegalengd að næsta sjúkrahúsi. Því er mjög mikilvægt að geta framkvæmt slíka rannsókn á stöðinni og fækkað óþarfa ferðum úr héraði.

Starfsfólk heilsugæslunnar er afar þakklátt fyrir þessa höfðinglegu gjöf og þeim velvilja sem henni fylgir. “Framlög frá kvenfélögum og öðrum góðgerðarsamtökum eru okkur ómetanleg; ekki síst nú á tímum þegar svigrúm til tækjakaupa er ekkert,” segir í tilkynningu frá heilsugæslustöðinni.