Kvenfélagskonurnar búnar að sauma 210 poka

Íbúar í Flóahreppi munu fá fjölnota innkaupapoka senda inn á heimili sín nú í september í tilefni af „Degi umhverfisins“, sem er þann 16. september.

Sveitarstjórnin samþykkti í febrúar síðastliðnum að fara í samstarf við kvenfélögin þrjú í sveitinni um gerð margnota innkaupapoka fyrir hvert heimili í sveitarfélaginu.

Nú hafa verið saumaðir 210 pokar og þær Ingibjörg Einarsdóttir, Guðrún Elísa Gunnarsdóttir og Sólveig Þórðardóttir, formenn kvenfélaganna í Flóahreppi mættu til síðasta fundar sveitarstjórnarinnar og afhentu formanni Atvinnu- og umhverfisnefndar Flóahrepps, Ingunni Jónsdóttur, pokana.

Sveitarstjórnin færði kvenfélögunum þakkir fyrir gott framlag til umhverfismála en innkaupapokinn er hvatning til íbúa til þess að minnka plastpokanotkun og táknrænt verkefni sem minnir á það hvernig innkaupastjóri hvers heimilis fyrir sig getur stýrt samsetningu heimilissorpsins með vali á neysluvörum í umhverfisvænum umbúðum.

Fyrri greinFjórir strengir plægðir niður í einu á tveggja metra dýpi
Næsta greinRáðið í þrjár stöður